Saga deildarinnar

Saga blaksins í Keflavík frá árunum 1969-2018

Árið 1969 var Íþróttafélag Keflavíkur stofnað með það í huga að koma á æfingum í þremur greinum: frjálsum íþróttum, badminton og fótbolta stúlkna. Allar fóru æfingarnar fram í Íþróttahúsi Myllubakkaskóla. Fljótlega var svo stofnað til Old boys æfinga undir stjórn Helga Hólm. Einn liður í þeim æfingatímum var að leika blak (eftir að búið var að koma upp blakbúnaði í húsinu) og var almenn ánægja með það enda blakið mjög hentug íþrótt fyrir slíkan hóp. Meðal þeirra sem þarna æfðu má nefna: Garðar Oddgeirsson, Margeir Ásgeirsson, Halldór Pálsson og Benedikt Sæmundsson.

Á árunum 1974-1975 fengu kennarar í Myllubakkaskóla úthlutað tíma í íþróttahúsi skólans til að leika blak einu sinni í viku. Að mestu voru þetta karlkennarar og í þeim hópi má m.a. nefna: Vilhjálm Ketilsson, Steinar Jóhannsson, Gunnar Jónsson, Garðar Schram, Hjört Kristjánsson og Ingólf Matthíasson. Nokkru seinna fóru svo konur í hópi kennara að vera með sinn blaktíma. Aðstaða skólans var ekki sérstaklega góð fyrir blakiðkun, íþróttasalurinn er lítill og rétt rúmar blakvöll. Netið var strengt á milli veggja auk þess sem lágt er til lofts.

Fjölbrautaskóli Suðurnesja var stofnaður árið 1976 og þegar íþróttahúsið við Sunnubraut var vígt árið 1980 skapaðist aðstaða fyrir kennara skólans til að leika blak. Meðal þeirra má nefna: Þorvald Sigurðsson, Stulla Ólafs, Ægi Sigurðsson og Hörð Ragnarsson. Einnig voru nokkrir kennarar Holtaskóla að leika blak og má meðal þeirra nefna: Björn Víking Skúlason, Fjalar Sigurðsson, Ólaf Oddur Jónsson og Snæbjörn Reynisson.

Um þetta leyti voru þessir hópar sem nefndir hafa verið að koma saman í kennaratímunum og þannig fékkst nógu stór hópur til að leika í fullum tveimur liðum. Það var síðan þegar þessi hópur fór að fara á hin ýmsu blakmót að ákveðið var að kalla hópinn Steinunn gamla en konurnar nefndu sinn hóp Kolbeinn ungi. Nafnið Steinunn gamla er líklegast til komið vegna töluverðra samskipta við blakhópinn Bresa á Akranesi en Bresi var í hópi landnámsmanna en eins og kunnugt er nam Steinunn gamla land hér á Suðurnesjum. Kolbeinn ungi tengdist hins vegar ekkert Suðurnesjum, en nafnið var mótvægi stelpnanna við Steinunni.

Þegar Landsmót UMFÍ var haldið hér í Keflavík árið 1984 var ákveðið að Keflavík myndi senda lið í blakkeppnina en þar sem keppendur yrðu að vera í ungmennafélagi þá var stofnuð blakdeild í UMFK. Ekki fara neinar sögur af starfsemi hennar eftir landsmótið.

Steinunn gamla flutti sig um set í íþróttahúsið í Heiðarskóla eftir að hann tók til starfa árið 1999. Fyrstu mótin sem Steinunn gamla tók þátt í voru hópamót ýmissa félaga. Einnig hefur verið tekið þátt í fjölmörgum Öldungalandsmótum. Margir hafa komið að stunda blak með liði Steinunnar gömlu til styttri tíma í gegnum árin og aðeins örfáir þeirra hafa verið nefndir hér.

HSK vann blakið

Þann 26. mars 2013 tóku svo nokkrir áhugamenn um blakíþróttina sig saman og sóttu um að stofna blakdeild innan Keflavíkur. Markmið deildarinnar var að hefja starfsemi undir merki Keflavíkur veturinn 2013-2014 með bæði unglinga og fullorðna í huga og smátt og smátt stækka deildina með því að bjóða æfingar fyrir börn þegar reynsla væri komin á starfið. Á stofnfundi var kosið í stjórn, fyrir kjörinu voru þau Jasmina Crnac formaður deildarinnar, Brynjar Harðarson, Svanhildur Skúladóttir, Sigurbjörg Ásdís Snjólfsdóttir, Sveinn Björnsson, Heiðrún Björk Sigmarsdóttir, Ragna Finnsdóttir og Freyja Másdóttir.

Stofnendur

Á þeim 5 árum sem deildin hefur verið starfsrækt hefur hún þroskast og dafnað. Enginn stofnenda deidarinnr situr enn í stjórn, en Svandís Þorsteinsdóttir tók við formennsku árið 2015 eftir eins og hálfs árs setu í stjórn.

Barna- og unglingastarf fer hægt vaxandi og er það óskandi að svo haldi áfram. Haldin hafa verið skemmtimót sem verða vinsælli með ári hverju auk þess sem deildin tók það að sér fyrir BLÍ að halda mót Meistara meistaranna og landsleik þar sem kvennalandslið Íslands mætti því danska í æfingaleik á síðastliðnu ári. Árið 2016 sigruðu bæði karla- og kvennalið Keflavíkur sínar deildir á Öldungarmótinu sem haldið var í Garðabæ. Nýjasta afrek deildarinnar eru deildarmeistaratitlar liðanna núí ár, en karlaliðið sigraði 3. deild á Húsavík eftir dramatískt mót þar sem meiðsli settu stórt strik í reikninginn og kvennaliðið 5. deild á Ísafirði eftir sætan sigur í lokaleik sínum þar sem þær voru í 3. sæti fyrir leikinn.

Nú hefur deildin sótt um að halda Öldung hér í Keflavík að ári ásamt blakdeild Þróttar Reykjavíkur og verður spennandi að sjá nú í lok mánaðarins hvort að svo verði, ef svo fer að mótið verði haldið hér er ljóst að deildin á stórt verkefni fyrir höndum næstkomandi ár.