Blakdeild Keflavíkur hefur ráðið til sín þjálfara
Nú á dögunum var gengið frá samningi við tvo pólska þjálfara sem munu þjálfa börn og fullorðna hjá Blakdeild Keflavíkur. Michal Rybak mun verða aðal þjálfari og honum til aðstoðar verður Krzysiek Majewicz. Einnig mun Svandís Þorsteinsdóttir verða þeim innan handar við þjálfun barnanna, en hún hefur verið að þjálfa börnin síðustu 3 ár.
Michal spilaði upp alla yngri flokka í Varsjá frá 1994-2003. 2003 ákveður hann að gerast blakþjálfari og fer í íþróttakennaranám við Háskólann í Varsjá. Eftir útskrift 2008 fer hann að þjálfa yngri flokka í Varsjá. Mesta afrek hans er að verða pólskur meistari með U-17 strákaliðið sitt árið 2012. 2014-2015 þjálfar hann í deild fullorðinna.
Krzysiek hefur spilað hér á landi síðustu 3 árin. Hann spilaði eitt ár með meistaraflokki Stjörnunnar og tvö ár með meistaraflokki Aftureldingar sem varð bikarmeistari 2017. Hann er að stíga sín fyrstu skref í þjálfun.
Í upphafi annar er það helst að frétta að við höfum skráð karla- og kvennalið Keflavíkur í Íslandsmót Blaksambandsins. Karlarnir í annað sinn og munu þeir keppa í 3. deild en konurnar í fyrsta sinn og munu þær keppa í 5. deild.
Við viljum bjóða alla nýja iðkendur velkomna, bæði fullorðna og börn. Þar sem tímataflan okkar er ekki alveg komin á hreint þá byrjum við á okkar gömlu tímum og erum með blandaða tíma. Konur og karlar saman á þriðjudögum kl.: 17:00-18:30 og miðvikudögum kl.: 20:00-21:30 í íþróttahúsi Heiðarskóla. Æfingar eru hafnar og í ágúst eru opnar spilaæfingar hjá fullorðnum svo allir eru velkomnir. Í september taka svo við formlegar æfingar þar sem þjálfararnir munu hefja störf hjá þeim fullorðnu.
Börnin eru öll saman til að byrja með en það mun allt ráðast af fjölda hvort þeim verður skipt niður. En æfingar barnanna eru á miðvikudögum kl.: 15:00-17:00 og föstudögum kl.: 16:00-17:00, einnig verða æfingar á laugardögum en sá tími er ekki alveg kominn á hreint. En æfingar barna hefjast föstudaginn 25. ágúst. Við bjóðum öll börn velkomin.
Við hvetjum ykkur til að fylgjast með okkur á Facebook síðu Blakdeildarinnar og einnig hér á heimasíðu Keflavíkur.