Góður árangur Keflavíkur á Stjörnustríðsmóti í blaki.
Blakdeild Keflavíkur vann til tvennra gullverðlauna á öldungamóti Blaksambands Íslands sem haldið var í Garðabæ dagana 5. - 7. maí síðastliðinn. Blakdeild Stjörnunnar stóð fyrir mótinu sem bar að þessu sinni yfirskriftina „Stjörnustríð“.
Á mótinu voru 158 lið eða um 1500 þátttakendur af öllu landinu og var þetta stærsta og fjölmennasta öldungamótið til þessa. Keppendur á þessum mótum þurfa að hafa náð 30 ára aldri til að mega taka þátt og má segja að þau séu nokkurs konar uppskeruhátíð eldri blakara.
Keppt var í sex karladeildum og tíu kvennadeildum. Blakdeild Keflavíkur átti þrjú lið á þessu móti, tvö karlalið og eitt kvennalið. Annað karlaliðið keppti í 4. deild og hitt, skipað nýliðum í blaki, keppti í 6. deild. Kvennaliðið var í síðan í 8. deild A. Nýliðarnir stóðu sig mjög vel miðað við að þeir voru að taka þátt í sínu allra fyrsta blakmóti og eiga þeir mikið hrós skilið fyrir það hve vel þeim gekk að stríða hinum liðunum en þeir munu koma reynslunni ríkari til leiks að ári.
Kvennaliðið og 4. deildar karlaliðið, sem eru skipuð reyndum blökurum, náðu þeim flotta árangri að sigra í öllum sínum leikjum og hrepptu bæði toppsætið í sínum deildum og munu því bæði færast upp um í eina deild fyrir næsta ári.
Bæði lið léku mjög vel í mótinu. Kvennaliðið fór í gegnum sína leiki með miklum yfirburðum og má með sanni segja að þær hafi borið höfuð og herðar yfir andstæðinga sína. Karlaliðið náði að bæta upp fyrir slakt gengi í síðasta móti og steig vart feilspor að þessu sinni.
Við vitum að það er eitthvað af blakáhugafólki hér á Suðurnesjum og við viljum hvetja það fólk sem hefur áhuga á að koma og æfa með okkur að fylgjast með okkur á Facebook en einnig má nálgast frekari upplýsinar á heimasíðu Keflavíkur.